Innlent

Eðlilegt og vel ráðið hjá Hönnu Birnu að sækjast eftir embættinu

MYND/Pjetur

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra telur yfirlýsingu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur um að hún sækist eftir borgarstjóraembættinu eðlilega og vel ráðna.

Björn gerir nýjustu tíðindum í borgarmálunum skil pistli á heimasíðu sinni, en eins og fram hefur komið verður Vilhjálmur áfram oddviti borgarstjórnarflokksins og formaður borgarráðs en óákveðið er hvaða sjálfstæðismaður tekur við af Ólafi F. Magnússyni sem borgarstjóri eftir rúmt ár.

Björn bendir á að í Mannamáli hjá Sigmundi Erni á Stöð 2 í gærkvöld hafi Geir H. Haarde forsætisráðherra minnt á að við myndun meirihluta sjálfstæðismanna og Ólafs F. í borgarstjórn hefði í yfirlýsingu verið talað um að Vilhjálmur Þ. tæki við af Ólafi F. Nú væri þetta opið.

Þá rifjar Björn upp að þegar Davíð Oddsson samdi við Halldór Ásgrímsson um að Halldór tæki við embætti forsætisráðherra af sér var samkomulagið bundið við Halldór. Geir H. Haarde varð forsætisráðherra en ekki framsóknarmaður þegar Halldór hætti. „Nú verður sjálfstæðismaður borgarstjóri, þegar Ólafur F. hættir, þótt það verði annar en Vilhjálmur Þ.," segir Björn enn fremur.

Þá vísar Björn til frétta Ríkisútvarpsins af því að Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarfulltrúi sæktist eftir því að verða borgarstjóri á næsta ári. „Yfirlýsing Hönnu Birnu í þessa veru er eðlileg og vel ráðin í ljósi þess, sem ákveðið var í borgarstjórnarflokknum í morgun," skrifaði Björn á heimasíðu sína í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×