Innlent

Villi áfram oddviti - Borgarstjórastóllinn settur á salt

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, leiðtogi Sjálfstæðisflokksins, mun sitja áfram sem oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en líklega ekki taka sæti borgarstjóra að ári eins og til stóð.

Sátt náðist um málið innan borgarstjórnarflokksins um helgina og mun Vilhjálmur tilkynna um ákvörðun sína með borgarfulltrúum og varaborgarfulltrúum síðdegis.

Sáttin felst í því að taka ekki ákvörðun um það að svo stöddu hver tekur við sæti borgarstjóra að ári heldur verður haldið um það sérstakt prófkjör innan borgarstjórnarflokksins. Jón Kristinn Snæhólm sem var aðstoðarmaður Vilhjálms þegar hann var borgarstjóri stakk upp á að þessi leið yrði farin í þættinum Hrafnaþing á sjónvarpsstöðinni ÍNN á fimmtudag. Reyndist hún vera sú eina sem allir borgarfulltrúar gátu sæst á sem og formaður og varaformaður flokksins.

Samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2 náðist ekki sátt um að Hanna Birna Kristjánsdóttir tæki sæti Vilhjálms eins og varaformaðurinn hefur barist fyrir. Stuðningsmenn Vilhjálms vildu frekar sjá Gísla Martein í því hlutverki. Fundur Vilhjálms með borgarfulltrúm og varaborgarfulltrúum flokksins verður haldinn síðdegis, líklega ekki fyrr en eftir klukkan fimm í dag.

Samkvæmt heimildum fréttastofu mun Vilhjálmur ekki boða til blaðamannafundar að honum loknum heldur senda frá sér yfirlýsingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×