Innlent

Bandarískur flugmaður um borð í vélinni sem leitað er að

TF-SYN á Reykjavíkurflugvelli fyrr í dag.
TF-SYN á Reykjavíkurflugvelli fyrr í dag. MYND/Stöð 2

Leitin að Piper Cherokee flugvélinni, sem hvarf af ratsjá fyrir austan land um hálftólfleytið í dag, hefur enn engan árangur borið.

Eins og fram hefur komið er vélin skráð í Bandaríkjunum og er flugmaðurinn bandarískur að sögn Landhelgisgæslunnar. Vélin hvarf af ratsjá þar sem hún var 130 sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði.

Fokker-flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SYN, kom á leitarsvæðið klukkan 13.30 í dag og þyrla, TF-LIF, stuttu síðar. Einnig hafa skip í nágrenninu verið beðin um að svipast um eftir vélinni.

Fram kemur í tilkynningu Flugstoða að vélin hafi farið frá Reykjavík klukkan hálftíu í morgun en hún var á leið til Wick á Skotlandi. Neyðarsendir flugvélarinnar fór í gang og nam gervihnöttur sendinn klukkan fjórar mínútur í tólf.

Veður og sjólag á svæðinu gerir leitina erfiða en mikill vindur er á svæðinu og ölduhæð 7-9 metrar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×