Innlent

Má vera aðili að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins

MYND/Hari

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur komist að því að fyrrverandi kennslukona við Landakotsskóla hafi átt rétt á því að vera aðili að B-deild Lífeyrisssjóðs starfsmanna ríkisins eftir að skólanum var breytt í sjálfseignarstofnun.

Konan starfaði um langt árabil við Landakotsskóla sem rekinn var af kaþólsku kirkjunni á Íslandi. Greiddi hún í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í ágúst 2005 var rekstrarfyrirkomulagi Landakotsskóla breytt þannig að sjálfseignarstofnun á vegum kirkjunnar tók við rekstri skólans.

Í kjölfarið tilkynnti forstöðumaður réttindamála hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkissins að sjálfseignarstofnunin hefði ekki heimild til að greiða í B-deild sjóðsins. Við þetta sætti konan sig ekki og fór með málið fyrir dómstóla.

Héraðsdómur komst að því með vísan til laga að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins væri heimilt að taka aðra en starfsmenn ríkisins í tölu sjóðfélaga, þar á meðal starfsmenn sjálfseignarstofnana sem störfuðu við almenningsþarfir. Því ætti konan rétt á aðild að sjóðnum frá ágústmánuði 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×