Innlent

Æðstu embættismenn hafa flúið borgina

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. Mynd/ Pjetur

Frá árinu 2002 hafa verið starfandi sex borgarstjórar, fjórir skipulagsstjórar, þrír sviðsstjórar framkvæmdasviðs (áður borgarverkfræðings og umhverfis- og tæknisviðs), fjórir borgarlögmenn og þrír fjármálastjórar hjá Reykjavíkurborg. Að auki hafa orðið sviðsstjóraskipti á velferðarsviði, menntasviði, leikskólasviði og umhverfissviði.

Þetta kemur fram í fyrirspurn sem Óskar Bergsson, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, lagði fram á fundi borgarráðs þann 14. febrúar síðastliðinn. Fyrirspurnin var lögð fram að því tilefni að skipulagsstjóri Reykjavíkur kaus að láta af störfum hjá Reykjavíkurborg. Telur Óskar að mikil hreyfing hafi verið meðal æðstu embættismanna borgarinnar á undanförnum árum og það sé verulegt áhyggjuefni.

Óskar spyr hvað geri það að verkum að yfirmenn Reykjavíkurborgar staldri svo stutt við. Einnig hvað borgarstjóri hyggist gera til þess að koma á nauðsynlegum stöðugleika lykistarfsmanna hjá Reykjavíkurborg.

Í svari borgarstjóra kemur fram að Reykjavíkurborg hafi ekki farið varhluta af því góðæri sem ríkt hafi á Íslandi að undanförnum árum og stjórnendur Reykjavíkurborgar hafi verið eftirsóttir í önnur störf. Stjórnkerfisbreytingar, bæði í tíð R-lista sem Framsóknarflokkur átti aðild að og í tíð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hafi einnig stuðlað að hreyfanleika á meðal æðstu stjórnenda.

„Það ætti því að vera kappsmál borgarfulltrúa allra þeirra flokka sem hafa komið að stjórnun borgarinnar á undanförnum árum að stuðla að auknum vinnufriði og festu í stjórn borgarinnar," segir í svari Ólafs Friðriks Magnússonar borgarstjóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×