Innlent

Hundrað milljónir króna í þróunarverkefni í ferðaþjónustu

MYND/Valgarður

Iðnaðarráðherra hefur ákveðið að ráðstafa 100 milljónum króna af fé Byggðaáætlunar á árunum 2007 - 2009 til þriggja þróunarverkefna í ferðaþjónustu.

Fram kemur í tilkynningu að auglýst verði eftir hópum fyrirtækja og einstaklinga í ferðaþjónustu sem vilja taka þátt í þróunarverkefnum á skilgreindum svæðum. Snúa verkefnin að menningartengdri ferðaþjónustu, gæðum og vöruþróun í ferðaþjónustu og matföngum úr héraði og áframhaldandi þróun viðfangsefnisins "Beint frá býli". Ferðamálastofa mun sjá um þróunarverkefnin í samvinnu við IMPRU á Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

Ætlunin er að mynda samstarfshóp væntanlegra framleiðenda, samtaka í ferðaþjónustu, og fulltrúa úr stoðkerfi atvinnu- og iðnþróunar til að vinna að því að þroska enn frekar hugmyndir um framleiðslu og sölu beint frá býli. Verkefninu er ætlað að ná yfir þriggja ára tímabil 2008, 2009 og 2010.

Nefnd komi með tillögur að endurskoðun ferðamálaáætlunar

Þá hefur ráðherra skipað nefnd undir forystu Svanhildar Konráðsdóttur, formans ferðamálaráðs, sem á að gera tillögur um endurskoðun á ferðamálaáætlun til 2015.

Nefndin á að skila tillögum í vor sem lúta að því með hvaða hætti opinberum fjárstuðningi við einstaka þætti ferðamála sé best skipað; á hvern hátt stjórnvöld geti stuðlað að árangursríku skipulagi í ferðamálum innanlands og hvernig þau geti tryggt samstarf og sem besta nýtingu fjármuna í markaðsmálum ferðaþjónustunnar og almennri landkynningu. Þetta segir í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu sem fer nú með málefni ferðaþjónustunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×