Innlent

Össur bloggar eins og götustrákur

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra skrifar á vefinn sinn eins og hann sé götustrákur, að mati Birgis Ármannssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins.

Birgir var viðmælandi Kollu og Heimis Í bítinu á Bylgjunni. Þar gagnrýndi hann harkaleg ummæli sem Össur skrifaði um Gísla Martein Baldursson í fyrrinótt. „Mér finnst þessi ummæli Össurar bara dæma sig sjálf. Hann lýsir því sjálfur að hann sé eins og götustrákur og ég tek undir það," segir Birgir. Hann segir að sjálfstæðismenn hafi rætt þetta mál í sínum hópi. „Ég held að það sé óhætt að segja það að fólk skilur bara ekkert í Össuri," bætir Birgir við. Hann segist þó ekki vita til þess að málið hafi verið rætt við Össur og býst ekki við að það verði eftirmál. „En það er auðvitað ljóst að þetta eru engir mannasiðir," segir Birgir.

Árni Þór Sigurðsson tók undir með Birgi og sagði svona framkomu af hálfu ráðherra ekki ganga. „Mér finnst þetta vera fyrir neðan allar hellur," sagði Árni, sem telur Össur vera í sandkassaleik í skrifum sínum á blogginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×