Erlent

Clinton lánaði eigin kosningasjóð 330 milljónir

Sigríður Guðlaugsdóttir skrifar
Fjárhagsstaða kosningasjóðs Obama er mun betri en hjá Clinton.
Fjárhagsstaða kosningasjóðs Obama er mun betri en hjá Clinton.

Hillary Clinton lagði til fimm milljónir bandaríkjadala, rúmlega 330 milljónir íslenskra króna, í kosningasjóð sinn úr eigin vasa fyrir forkosningarnar á þriðjudag. Þá munu sumir lykilstarfsmenn kosningaframboðs hennar einnig hafa samþykkt að vinna launalaust í einn mánuð samkvæmt heimildum CNN sjónvarpsstöðvarinnar.

„Okkur gekk mjög vel að afla fjár í janúar, settum meira að segja met," sagði Clinton við fréttamenn; „En keppinaut mínum tókst að afla meira fjár og við ætlum að vera samkeppnishæf, og við erum það, ég held að úrslit þriðjudagsins sýni réttmæti fjárfestingarinnar."

Gloria Borger helsti stjórnmálaskýrandi CNN segir að nú vilji Clinton eiga kappræður við Obama í hverri viku. Kosningasjóður hennar hafi ekki efni á fjáraustri í auglýsingar.

Barack Obama og Hillary Clinton berjast fyrir tilnefningu Demókrataflokksins eftir afar jöfn úrslit forkosninga á þriðjudag. Clinton sagði að barátta hennar væri í fullum gangi eftir að hún fór með sigur í nokkrum stórum fylkjum á þriðjudag. Obama sagði að fjöldi forkosninga væri eftir þar sem berjast þyrfti fyrir atkvæðum og staða hans væri sterkari en fyrir tveimur vikum.

John McCain er með töluvert forskot úr röðum frambjóðenda Repúblíkana. Fréttaskýrendur segja sigur hans næstum vissan, en barátta Demókrata gæti haldið áfram að flokksþingi í ágúst þegar tilnefningin verður innsigluð.

Kosið verður í sex ríkjum á næstu fjórum dögum. Fyrst í Louisiana, þá Nebraska og Washingtonríki á laugardag og svo Maryland, Virginíu og Washington DC.

Hillary hefur nú hlotið 782 kjörmenn en Obama 757. Til að tryggja sér sigur þarf annað hvort þeirra að ná 2.025 kjörmönnum.

Clinton segist hafa unnið flest atkvæði og flesta kjörmenn á meðan Obama segist hafa unnið flest ríki og flesta kjörmenn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×