Erlent

Milljónir Bandaríkjamanna ganga til kosninga í 24 ríkjum

Búist er við góðri kjörsókn víðast hvar verið í forkosningunum sem nú standa yfir í Bandaríkjunum. Íbúar 24 ríkja hópast nú á kjörstaði til þess að taka þátt í að velja forsetabrambjóðanda fyrir demókrata og repúblikana. Í kosningunum fá frambjóðendur úthlutað kjörmönnum sem á endanum munu síðan velja frambjóðenda. Um 42 prósent kjörmanna verða valdir í dag og er talið líklegt að niðurstöðurnar skeri úr um hver hljóti tilnefninguna hjá repúblikönum. Margt bendir til þess að úrslitin í nótt verði á þá leið að John McCain nái að sigra Mitt Romney og hljóta þar með tilnefningu síns flokks.

Mitt Romney.

Hjá rebúblikönum er aðferðin í forkosningunum yfirleitt sú að sá sem fær flest atkvæði fær alla kjörmenn þess ríkis. Málið er hins vegar flóknara hjá demókrötum sem hafa þann háttinn á að skipta kjörmönnum eftir hlutfallslegu atkvæðamagni. Mjög mjótt er á mununum á milli Hillary Clinton og Barack Obama samkvæmt könnunum og telja flestir stjórnmálaskýrendur að barátta þeirri muni standa fram á vor en síðustu ríkin velja sér kjörmenn í maí.

John McCain.

Eins og áður sagði er búist við góðri kjörsókn, en þó hefur borið á vandræðum með kosningavélar í Flórída auk þess sem langar biðraðir við kjörstaði í Georgíu hafa fælt fólk frá. Þá hefur veðrið verið með versta móti í nokkrum ríkjum og er það talið koma niður á kjörsókninni.

Hillary Clinton og Bill er í bakgrunni.

Nú þegar hefur Mike Huckabee verið lýstur sigurverari í Vestur Virginíu hjá repúblikönum. Fyrstu útgönguspár koma svo í fleiri ríkjum um eittleytið. Kjörstöðum lokar á miðnætti í Georgíu en klukkan eitt lýkur kosningu í ellefu ríkjum, þar á meðal í Illinois og Massachusetts. Klukkan hálf tvö lýkur kosningu í Arkansas og klukkan tvö koma fyrstu útgönguspár í sjö ríkjum, þar á meðal í New York og í Arizona.

Barack Obama.

Þessum Ofur-þriðjudegi, eða Super Tuesday lýkur svo klukkan fjögur í nótt að íslenskum tíma þegar kjörstöðum verður lokað í Kalíforníu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×