Erlent

Dregur saman með Clinton og Obama

Vel fór á með þeim Clinton og Obama í lok sjónvarpskappræðna í Los Angeles í síðustu viku.
Vel fór á með þeim Clinton og Obama í lok sjónvarpskappræðna í Los Angeles í síðustu viku. MYND/AFP

Barack Obama og Hillary Clinton njóta svipaðs stuðnings meðal demokrata á landsvísu í Bandaríkjunum, samkvæmt skoðanakönnun sem Washington Post birtir í dag. Clinton er samkvæmt könnuninni með 47 prósent stuðning en Obama 43 prósent.

Á þriðjudag verða prófkjör í næstum helmingi fylkja Bandaríkjanna. Könnun sem gerð var í Kaliforníu sýnir að þar hefur Obama aukið fylgi sitt verulega og er nú lítill munur á þeim.

Clinton var áður með mikið forskot í Kaliforníu. Kannanir sýna að óvenju margir hafa enn ekki gert upp hug sinn þannig að allt getur gerst á næstu tveimur dögum.

Forsetaframbjóðendurnir svöruðu í gær spurningum ungra áhorfenda MTV tónlistarstöðvarinnar. Barack Obama sagðist mundu sem forseti vera í einstakri aðstöðu til að ræða við leiðtoga múslimalanda, því að þó að hann væri sjálfur kristinn þá hefði hann sem barn alist upp í múslimalandi. Hann átti heima í Indónesíu.

Áberandi var að þegar unga fólkið ræddi við Clinton og aðra frambjóðendur þá notaði það tækifærið meðal annars til að spyrja um Obama.

Obama hefur sótt verulega í sig veðrið í Kaliforníu, þar sem Clinton var með mikið forskot. Hún er nú með 36 prósent stuðning en hann 34 prósent. Einn af hverjum fimm demokrötum í Kaliforníu hefur ekki ákveðið sig en það hlýtur að vera Clinton mikið áhyggjuefni að þeir sem hafa verið að gera upp hug sinn undanfarið hafa í miklum mæli valið Obama.

Þá hefur John McCain meðal Repúblikana einnig sótt í sig veðrið undanfarið. Kannanir í Kaliforníu sýna að ef valið stæði á milli Clinton og McCain, myndu tveimur prósentum fleiri velja Clinton, en ef valið stæði milli Obama og McCain, myndu sjö prósentum fleiri velja Obama. Með öðrum orðum, þá finnst æ fleiri kjósendum Obama vera sigurstranglegri gegn repúblikönum heldur en Clinton.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×