Erlent

Sex létust í sprengjuárás á Sri Lanka

Sérsveitarmenn rannsaka svæðið þar sem fyrri sprengjan sprakk í dýragarðinum í Dehiwala, skammt frá höfuðborginni Colombo í morgun.
Sérsveitarmenn rannsaka svæðið þar sem fyrri sprengjan sprakk í dýragarðinum í Dehiwala, skammt frá höfuðborginni Colombo í morgun. MYND/AFP

Að minnsta kosti sex létu lífið og 85 særðust í sprengingu á lestarstöðinni í Colombo höfuðborg Sri Lanka í morgun. Lögregla segir að kona búin sjálfsmorðssprengjubúnaði hafi sprengt sjálfa sig í loft upp þegar farþegalest nam staðar á lestarpalli. Talið er að Tamíl-tígrar, sem berjast fyrir sjálfstæðu ríki Tamíla á norðanverðri eynni, hafi staðið fyrir tilræðinu.

Árásin átti sér stað eftir að gripið var til aukinna öryggisráðstafana vegna hátíðarhalda á morgun í tilefni 60 ára sjálfstæðisafmælis þarlendra frá Bretum.

Á föstudag létust 18 í sprengjutilræði í bænum Dambulla. Því tilræði var lýst á hendur Tamil-tígrum.

Lestarstöðin í Colombo er í hjarta borgarinnar, nálægt skrifstofum forsetans og nokkrum helstu hótelum í borginni.

Fjórir slösuðust í annarri sprengjuárás fyrr í morgun í dýragarði borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×