Innlent

Heimildir í tóbakslögum til þvingunarúrræða óljósar

Heimildir til þvingunarúrræða eru ekki nægilegar skýrar þegar kemur að brotum gegn reykingabanni á veitingastöðum. Borgin hefur neyðst til að fresta aðgerðum gegn veitingastað sem þykir hafa brotið gegn banninu.

Á veitingastaðnum Barnum, við Laugaveg, hafa reykingar verið leyfðar innandyra um nokkurt skeið. Eigendur staðarins komu fyrir sérstöku reykherbergi síðasta haust og hefur því enn ekki verið lokað. Umhverfissvið Reykjavíkurborgar hefur gert nokkrar athugasemdir við herbergið enda talið að það brjóti gegn reykingabanninu sem tók gildi í síðastliðnum júnímánuði.

Fyrir skemmstu stóð til að innsigla herbergið en að sögn Arnar Sigurðssonar, setts sviðsstjóra umhverfissviðs, hefur þeim aðgerðum nú verið frestað þar sem heimildir til þvingunarúrræða í tóbakslögum þykja ekki nægilega skýrar. Hann hefur nú sent bréf til heilbrigðisráðuneytisins þar sem óskað er eftir greinargerð og lagatúlkun frá ráðuneytinu.

Eigandi Barsins og formaður Félags kráareigenda segist staðráðinn í því að fara með málið alla leið fyrir dómstóla ef svo ber undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×