Innlent

Alfreð fordæmir vinnubrögð Guðjóns Ólafs

Björn Ingi Hrafnsson
Björn Ingi Hrafnsson

Stjórn Alfreðs, Félags ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður, hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna atburða undanfarinna daga.

„Það er gríðarlegt áfall fyrir Framsóknarflokkinn að leiðtogi hans í Reykjavík, Björn Ingi Hrafnsson, hefur ákveðið að hætta í stjórnmálum. Mikill uppgangur hefur verið í félagsstarfinu og friður hafði skapast undir öruggri forystu Björns Inga í borginni. Mörg góð verk liggja eftir þennan öfluga forystumann sem lagði allan sinn metnað í að vinna vel fyrir flokkinn okkar sem og borgarbúa alla.

Það er með ólíkindum að einstaklingar eins og Guðjón Ólafur Jónsson sem og ónefndur fyrrverandi félagsmaður og borgarfulltrúi Framsóknarflokksins geti lagst svo lágt til að skemma vísvitandi fyrir flokknum og flokksfólki öllu. Fólk sem er algjörlega rúið trausti og stuðningi innan flokksins, fólk sem hefur ítrekað reynt að beita svikum og óheilindum til að ná sínu framgengt. Stjórn Alfreðs fordæmir svona vinnubrögð afdráttarlaust og afgerandi. Við viljum ekki vinna með svona fólki, við viljum ekki fólk í flokknum okkar sem eru ekki að hugsa um hag flokksins heldur lætur eigin hagsmuni stjórna ferð.

Á sama tíma og stjórn Alfreðs harmar brotthvarf foringja flokksins í Reykjavík er komið að því að þau vinnubrögð sem tíðkuð hafa verið af Guðjóni Ólafi Jónssyni og ónefndum fyrrverandi félagsmanni og borgarfulltrúa flokksins verði útrýmt í flokknum. Þessu fólki hefur ítrekað verið hafnað af flokksmönnum en þrátt fyrir það reyna þau áfram að koma sjálfum sér til valda með ógeðfelldum og sviksamlegum hætti. Stjórn Alfreðs fordæmir slík vinnubrögð og þá aðila sem fyrir þeim standa."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×