Innlent

Utanríkisráðuneytið veitir sjö milljónir til aðstoðar í Kenía

Vargöld hefur ríkt á stórum svæðum í Kenía að undanförnu.
Vargöld hefur ríkt á stórum svæðum í Kenía að undanförnu. MYND/AP

Utanríkisráðuneytið hefur veitt Rauða krossinum sjö milljónir króna til neyðaraðstoðar í Kenía. Féð rennur til aðgerða Alþjóða Rauða krossins í landinu.

Þetta þýðir að framlag Íslands nemur samtals tíu milljónum en Rauði kross Íslands lagði þrjár milljónir til hjálparstarfsins í byrjun janúar. Bent er á í tilkynningu frá Rauða krossinum að ástandið sé enn þrungið spennu á fjölmörgum stöðum í Keníu í kjölfar forsetakosningar í landinu í síðasta mánuði. Þrátt fyrir sáttaumleitanir, nú síðast með milligöngu Kofi Annan, fyrrverandi aðalritara Sameinuðu þjóðanna, eru engin merki um að ástandið sé að lagast.

Alþjóða Rauði krossin notar styrktarféð til þess að útvega fórnarlömbum átakanna matvæli og aðrar nauðsynjar eins og teppi, moskítónet, hreinlætisvörur og vatn. Þá hefur verið sett á fót leitarþjónusta á þeim svæðum þar sem fólk hefur neyðst til að flýja heimili sín, en talið er að um 250 þúsund manns séu á vergangi. Nú þegar hafa 120 börn fundið foreldra sína með aðstoð Rauða krossins af þeim 150 börnum sem hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×