Innlent

Tveggja mánaða skilorð fyrir líkamsárás

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi í dag pilt í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi. Í október í fyrra sló pilturinn annan mann hnefahöggi í andlitið með krepptum hnefa þannig að hann rotaðist og skall í jörðina og kýldi hann síðan tveimur höggum þar sem hann lá meðvitundarlaus í jörðinni. Árásarþolinn hlaut brot á andlitsbeinum, heilahristing, bólgu og yfirborðsáverka í andliti og brotna tönn.

Ákærði viðurkenndi fyrir lögreglu og fyrir dómara að hafa slegið manninn en kvaðst hafa gert það í neyðarvörn þar sem maðurinn hefði veist að sér að fyrra bragði, tekið sig hálstaki aftan frá, lagt sig í jörðina og sett hnéð í andlit sitt. Kvaðst ákærði fyrir dómi að sér hefði fundist sér ógnað með þessari aðför og því brugðist við eins og hann gerði. Kvaðst hann ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort maðurinn hreyfði sig eftir að hann féll í jörðina og áður en seinni höggin voru veitt. Framburður vitnis staðfesti þessa frásögn ákærða.

Ákærði krafðist sýknu á grundvelli þess að atlagan að honum sjálfum hafði verið mjög hættuleg og ákærði orðið hræddur. Dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ákærði hafi farið langt út fyrir mörk leyfilegrar neyðarvarnar og krafa um sýknu ekki tekin til greina af þeim sökum. Við ákvörðun refsingar var litið til þess að árásarþolinn veittist að ákærða í upphafi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×