Innlent

Geir: Trúverðugur meirihluti í borginni

Geir Hilmar Haarde, forsætisráðherra.
Geir Hilmar Haarde, forsætisráðherra.

Geir H. Haarde forsætisráðherra hélt blaðamannafund eftir ríkistjórnarfundinn í morgun þar sem hann fór yfir stöðuna í Reykjavík eftir að nýr meirihluti varð til í gær. Hann sagði ljóst að breytingarnar hafi engin áhrif á ríkisstjórnarsamstarfið og að hann hafi þegar rætt málið við Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, utanríkisráðherra og formann Samfylkingarinnar.

Geir sagði ljóst að hann hafi ekki verið ánægður með það þegar meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sprakk í fyrra og þá þegar hafi hann talið að samstarf fjögurra flokka myndi ekki ganga í Reykjavík.

Geir sagðist ánægður með að sjálfstæðismenn séu aftur komnir í meirihluta í borginni og hann var bjartsýnn á að nýr meirihluti geti komið ýmsu til leiðar, eins og málefnaskráin sem kynnt var í gær benti til. Hann sagðist einnig ánægður með að sættir skuli hafa náðst á milli Ólafs F. Magnússonar og Sjálfstæðisflokksins en Ólafur var afar óhress með vinnubrögð Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar á sínum tíma þegar hann myndaði meirihluta með Birni Inga Hrafnssyni.

Þegar Geir var spurður út í þá staðreynd að Margrét Sverrisdóttir, varamaður Ólafs F. styddi ekki þennan nýja meirihluta sagði hann þá stöðu óneitanlega flókna, en hann sagðist treysta því að meirihlutinn getir setið út kjörtímabilið. „Þetta er trúverðugur meirihluti," sagði Geir. Hann sagðist fyrst hafa gert sér grein fyrir því að alvara væri komin í viðræður á milli Ólafs og sjálfstæðismanna í gær þegar Vilhjálmur Vilhjálmsson hringdi í sig og greindi honum frá stöðu mála.

Að lokum ítrekaði Geir að þessi mál muni ekki hagga ríkisstjórninni auk þess sem hann bauð Ólaf F. Magnússon velkominn í Sjálfstæðisflokkinn á ný en hann sagði sig úr flokknum eftir frægan landsfund árið 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×