Innlent

Björguðu 180 tonna bát í Njarðvík

180 tonna mannlaus stálbátur, Tjaldanes GK, slitnaði frá bryggju í Njarðvík í nótt og rak upp í fjöru. Björgunaraðgerðir báru þann árangur að báturinn náðist á flot og aftur að bryggju laust fyrir klukkan sjö. Verið er að kanna skemmdir.

Annar minni bátur slitnaði þar frá bryggju, en náðist áður en hann ræki upp í fjöruna, en á áttunda tímanum komst sjór í hraðfiskibátinn Sunnu Líf KE í Keflavíkurhöfn og marar hann í hálfu kafi.

Samhæfingastöð Almannavarna var mönnuð laust fyrir miðnætti og hafa björgunarsveitir víða verið kallaðar út vegna foks og leka. Veðurofsinn hefur verið mestur frá Vestmannaeyjum, suður um Reykjanesið og norðvestur til Bolungarvíkur, þar sem björgunarmenn voru kallaðir út undir morgun vegna foks.

Þá brutust björgunarsveitarmenn upp á Fróðárheiði seint í gærkvöldi til að aðstoða fólk, sem sat þar fast í bílum sínum. Nokkur flutningaskip liggja í vari inni á Faxaflóa, þar af eitt sem snéri við eftir að hafa reynt að sigla fyrir Reykjanesið í gærkvöldi.

Víða er mikið snjófarg á húsþökum og eru nokkur dæmi þess að snjórinn hafi rifið með sér þakkanta þegar hann hefur runnið niður í hlákunni. Sumstaðar hafa þök líka farið að leka og dæmi eru um að niðurföll hafi stíflast og vatn komist inn í kjallara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×