Innlent

Takmörkuð flutningsgeta

MYND/Haraldur

Flutningskerfi raforku um landið er með öllu óviðunandi, að mati stjórnar Norðurorku á Akureyri. Hún segir óhjákvæmilegt að byggðalínan verði styrkt og að fjármunir til verksins verði fengnir úr ríkissjóði enda sé um að ræða sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna.

Í sögðum frá því í fréttum okkar í vikunni að ein af nýjustu virkjunum Landsvirkjunar, Sultartangavirkjun, er óvirk vegna bilunar. Landvirkjun hefur rætt við fulltrúa stóriðjunnar á suðvesturhorninu, sem kaupa svonefnt afgangs rafmagn eða ótryggða orku, um að hugsanlega þurfi að draga eitthvað úr orku til þeirra þar til viðgerð lýkur.

Stjórn Norðurorku hefur nokkrar áhyggjur af þróun mála og sendi frá sér ályktun í vikunni. Norðanmenn segja að það séu ekki aðeins bilanir í Sultartangastöð sem leiði til skerðingar á ódýrri afgangsorku heldur einnig takmarkanir á flutningsgetu Landsnets, sem hamli flutningi á orku milli landshluta.

Undanfarnar vikur hefur Kárahnjúkavirkjun framleitt um fimmtíu megavött umfram þarfir álvers Alcoa við Reyðarfjörð. Sú raforka fer inn á landskerfið með Byggðalínunni og hefur komið sér vel þann tíma sem orkuvinnsla hefur legið niðri í Sultartangavirkjun. Þorsteinn Hilmarsson, talsmaður Landsvirkjunar, segir þó takmörk fyrir því hversu mikla raforku hægt er flytja þaðan vegna takmarkana á flutningsneti.

Norðurorka telur óhjákvæmilegt að byggðalínan verði styrkt og að fjármunir til verksins verði fengnir úr ríkissjóði enda sé um að ræða sameiginlegt hagsmunamál allra landsmanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×