Erlent

Tveir látnir í óveðri í Bandaríkjunum

Að minnsta kosti tveir eru látnir af völdum óveðurs sem geisar á Vesturströnd Bandaríkjanna. Hellirigning, snjór og sterkir vindar fylgja veðrinu. Snjóflóðaviðvaranir voru gefnar út í Sierra Nevada fjöllum þar sem einn og hálfur meter féll af snjó. Þá er varað við flóðum í suðurhluta Kaliforníu og aurskriðum.

Meira en milljón heimili eru án rafmagns í Kaliforníu eftir óveður gekk yfir ríkið í gær. Tré rifnuðu upp með rótum og rafmangsstaurar féllu. Vegum hefur verið lokað og flug sums staðar felld niður.

Í Nevada brast varnargarður vegna rigninga og vatn flæddi inn á 800 heimili. Björgunarsveitir unnu að því að koma fólki til hjálpar og notuðu meðal annars skólarútur til að flytja 3.500 manns af flóðasvæðinu. Snjór og kuldi auðvelda ekki aðstæður fólksins. Búist er við frekari snjókomu og köldu veðri í fjallendi.

Herinn var sums staðar kallaður til með þyrlur og annan tækjabúnað. Rauði krossinn setti upp neyðarskýli fyrir ökumenn sem komust ekki leiðar sinnar. Flóðviðvaranir eru í gildi á stórum svæðum suðurhluta Kaliforníu, meðal annars stærstum hluta Los Angeles sýslu.

Íbúar Orange sýslu sem urðu fyrir barðinu á miklum skógareldum síðasta haust hafa verið varaðir við flóðum og aurskriðum, en hellirigning hefur verið á svæðinu og spáð frekari úrkomu. Þrjú þúsund manns voru beðnir að yfirgefa heimili sín. Þá hafa stormviðvaranir verið gefnar út í Colorado þar sem búist er við að snjó kyngi niður.

Búist er við frekari úrkomu fram til morguns en jafnframt að veðrið gangi eitthvað niður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×