Erlent

Bandarísk sendinefnd komin til Kenía

Sendinefnd á vegum Bandaríkjanna er nú komin til Kenía til að miðla málum í stjórnmálakreppunni sem þar ríkir eftir úrslit forsetakosninganna síðustu helgi. Jendayi Frazer helsti sendifulltrúi Bandaríkjanna í Afríku átti fund með Raila Odinga leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Naíróbí og mun hitta Mwai Kibaki forseta í dag.

Stjórnarandstaðan sakar Kibaki forseta um kosningasvindl í kosningunum 27. desember. Óöld í landinu hefur kostað 350 manns lífið og að minnsta kosti 250 þúsund manns hafa flúið heimili sín. Sumir þeirra búa í neyðarskýlum en aðrir hafa leitað skjóls á lögreglustöðvum eða í kirkjum. Kibaki forseti hefur sagt að hann muni einungis samþykkja að kosningar fari fram að nýju ef hæstiréttur úrskurði á þann veg. Stjórnarandstaðan segir hins vegar að dómskerfið sé hallt undir forsetann og niðurstöður þess verði honum vafalítið í vil.

Gripdeildir hafa verið stundaðar víða í landinu þar sem verslanir eru lokaðar. Óöldin hefur kostað verslun og iðnað, sér í lagi ferðamannaiðnaðinn, milljónir dollara og í höfninni í Mombasa hlaðast upp gámar með vörum sem ekki er hægt að dreifa, vegna þess að vegir eru ekki öruggir og flutningar ganga afar hægt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×