Innlent

Hundrað sjálfboðaliðar Rauða krossins stóðu vaktina í nótt

Sjálfboðaliðar Rauða krossins stóðu vaktina í nótt
Sjálfboðaliðar Rauða krossins stóðu vaktina í nótt

Rúmlega hundrað sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa staðið vaktina í fjöldahjálparstöðvum við íþróttamiðstöðina í Hveragerði og í Vallarskóla á Selfossi í alla nótt og veittu meðal annars áfallahjálp.

Nokkrir gistu þar og margir gistu í hjólhýsum og tjaldvögnum. Hreint drykkjarvatn er þar á boðstólnum en drykkjarvatn hefur sumstaðað mengast eftir að leiðslur skemmdust. Þá útvegaði Rauði krossinn mörgum gistingu á höfuðborgarsvæðinu, meðal annars 75 manns af dvalarheimilinu Ási í Hveragerði.

Lögreglu- og slökkviliðsmenn af höfuðborgarsvæðinu hafa verið heimamönnum til aðstoðar frá því að skjálftinn reið yfir. Björgunarfólk hrósar heimamönnum fyrir rósemi í öllum hremmingunum.

Skólahald fellur niður í Árborg og Hveragerði í dag. Allir vegir á svæðinu eru orðnir færir eftir að Vegagerðin fyllti í sprungur og lagfærði misfellur, en fimm tonna öxulþungi er á Óseyrarbrú á milli Þorlákshafnar og Eyrarbakka, vegna skemmda á brúnni.

Stóri skjálftinn í gær var allt að 6,3 á Richter og hafa fjölmargir eftirskjálftar mælst síðan. Í nótt hafa þeir verið innan við þrír á Richter og er heldur að draga úr skjálftavirkninni samkvæmt upplýsingum jarðvísindadeildar Veðurstofunnar. Ekki er taliln hætta á örðum stórum skjálfta á borð við stóra skjálftann í gær.

Ekkert var farið að meta tjón í nótt, en augljóst er að nokkur íbúðarhús eru ónýt á Selfossi Í Hveragerði, á Eyrarbakka og í dreifbýlinu á svæðinu. Fyrir utan tjón á innbúi, varð vatnstjón í nokkrum húsum á Árborgarsvæðinu í nótt þegar heitt vatn flæddi úr löskuðum leiðslum og lögn í einni götu brast. Ljóst er að nokkrir sumarbústaðir eru stór skemmdir eða ónýtir.

Veitingastaðurinn Ingólfsskáli í Ölfusi er talinn ónýtur eftir skjálftann, Skemmdir urðu á Hótel Örk í Hveragerði, þungir kirkjubekkirnir í Selfosskirkju ultu um koll, og safngripir skemmdust í byggðasafni Árnesinga á Eyrarbakka, svo eitthvað sé nefnt.

Geir H. Haarde lýsti því á Alþingi í gærkvöldi að allt yrði gert til að tryggja öryggi fólks á hamfarasvæðinu og verða aðgerðir af hálfu ríkisins ræddar á ríkisstjórnarfundi fyrir hádegi.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.