Erlent

Ættleiðingum í Danmörku fækkar um hátt í helming

Mun færri barnlaus pör í Danmörku geta nú fengið að ættleiða börn en áður. Hefur ættleiðingum í Danmörku fækkað um hátt í helming fá því um aldamótin síðustu.

Samkvæmt umfjöllun um málið í blaðinu Berlingske Tidende voru rúmlega sjö hundruð börn ættleidd í Danmörku árið 2000 og komu flest þeirra frá flöndum á borð við Indland og Kína. Þessi fjöldi í fyrra nam rúmlega fjögur hundruð börnum.

Byggt er á upplýsingum frá tveimur stærstu ættleiðingarstofnunum landsins, Danadopt og AC Börnehjælp. Ástæðan fyrir að svo mjög dregur úr ættleiðingum meðal Dana er ekki viljinn til að ættleiða heldur spilar tvennt hér inn í. Í fyrsta lagi er orðið vinsælt um allan heim að ættleiða börn þannig að fleiri eru um hituna. Og í öðru lagi eru þau lönd sem börnin koma yfirleitt frá orðin efnaðari og þar með hafa möguleikarnir á að ættleiða börn innanlands aukist hjá þeim.

Þannig sýna tölur að fjöldi ættleiddra barna frá Indlandi og Kína hefur hrapað á síðustu árum. Sökum þessa þurfa dönsk pör sem vilja ættleiða barn nú að bíða eftir slíku í fjögur til fimm ár en áður var biðtíminn innan við tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×