Innlent

Amnesty í Færeyjum kannar einangrunarmál í færeyskum fangelsum

Færeyjadeild Amnesty International hyggst kanna hversu mikið einangrun er nýtt sem úrræði í færeyskum fangelsum. Er það gert í kjölfar frétta af Íslendingi sem þurfti að dúsa í einangrun í 170 daga í tengslum við Pólstjörnumálið svokallaða.

Fjallað er um málið á vef færeyska útvarpsins og þar kemur fram að Firouz Gaini, formaður Amnesty í Færeyjum, harmi meðferðina á Íslendingnum. „Okkur þykir mjög leiðinlegt að við þurfum að upplifa þetta í Færeyjum því þetta er beinlínis ómanneskjuleg aðferð," segir Gaini.

Hann bendir á að rannsóknir sýni að það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir fólk að sitja mjög lengi í einangrun. Fá lönd noti eingangrun sem úrræði jafnmikið og norrænu ríkin.

Í sama streng tekur Christian Andreasen, verjandi í Færeyjum, og segir einangrun nokkurs konar refsingu samfélagsins áður en dómur fellur. „Markmiðið með einangrun á að vera að takmarka möguleika sakbornings á að hafa áhrif á málið og það er ekki hægt að halda því fram að hann geri það í dag," segir Andreasen. Eins og fram hefur komið hafa sex menn verið dæmdir í tengslum við málið hér á landi.

Þess má geta að Íslendingurinn er kominn úr einangrun í Færeyjum en hann verður í gæsluvarðhaldi þar til dómur hefur gengið í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×