Lífið

Hlustendaverðlaunin aldrei flottari

Hlustendaverðlaun FM957 eiga að toppa öll fyrri ár.
Hlustendaverðlaun FM957 eiga að toppa öll fyrri ár.
„Þetta kostar margar milljónir," segir Brynjar Már Valdimarsson, tónlistarstjóri FM957. Hinn 3. maí verða Hlustendaverðlaun FM957 veitt við hátíðlega athöfn í Háskólabíói. „Þetta verða flottustu hlustendaverðlaun hingað til. Ef allt heppnast verður þetta „mind­blowing"," segir Brynjar en starfsmenn FM957 vinna baki brotnu að því að gera þennan viðburð að veruleika, í samvinnu við Sagafilm.

Afhending Hlustendaverðlaunanna verður sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 og er það í fyrsta sinn sem það er gert. „Þetta byrjar á rauða dreglinum, þremur korterum fyrir útsendingu á Stöð 2 extra. Þá verður stiklað á stóru með tónlistarmönnum landsins. Hátíðin sjálf hefst svo formlega klukkan 21.30 í beinni á Stöð 2."

Brynjar segir að öll stærstu nöfnin í íslenskri tónlist komi fram á hátíðinni. „Svo munu flestar skærustu sjónvarpsstjörnur landsins sjá um að kynna og veita verðlaun," segir Brynjar.

Stóri salurinn í Háskólabíói rúmar 970 manns. Miðasala hófst á miðvikudag og fer vel af stað. „Síðan munum við gefa hlustendum miða í bestu sætin."

Að hátíðinni lokinni verður svo partí fyrir tónlistarmennina og aðstandendur hátíðarinnar. Það verður ekki í beinni útsendingu þó. „Nei, sem betur fer," segir Brynjar og hlær.- shs






Fleiri fréttir

Sjá meira


×