Erlent

Tsvangirai reiðubúinn að yfirgefa sendiráð á næstu dögum

Morgan Tsvangirai, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Simbabve, segist reiðubúinn að yfirgefa sendiráð Hollands í Harare ef hann fái tryggingu fyrir því að hann sé öruggur.

Tsvangirai flýði í sendiráðið á sunnudagskvöld vegna ótta við fylgismenn Roberts Mugabe forseta en fyrr þann dag hafði stjórnandstöðuleiðtoginn dregið framboð sitt til forseta í kosningum á föstudag kemur til baka. Tsvangarai sagði við hollenska útvarpsstöð í dag að sendiherra Hollands í Simbabve hefði rætt við ríkisstjórn landsins og fengið staðfestingu á því að hann yrði ekki fyrir árás. Hann gæti því yfirgefið sendiráðið á næstu dögum.

Tsvangirai fagnaði einnig álykun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem segir ómögulegt sé að halda frjálsar og óháðar kosningar í Simbabve við núverandi aðstæður. Jafnframt er ofbeldið gegn stjórnarandstöðunni í landinu fordæmt. Öryggisráðið vill að kosningunum verði frestað. Fulltrúi Simbabve hjá Sameinuðu þjóðunum segir að slíkt komi ekki til greina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×