Innlent

Tíu lögreglumenn rannsaka morðið á Hrafnhildi

Hrafnhildur er fyrir miðju á myndinni sem fengin er af heimasíðu hennar.
Hrafnhildur er fyrir miðju á myndinni sem fengin er af heimasíðu hennar.

Tíu lögreglumenn í Dóminíska lýðveldinu rannsaka nú morðið á Hrafnhildi Lilju Georgsdóttur sem fannst látin á hótelherbergi sínu skömmu eftir hádegi á mánudaginn.

Tveir lögreglumenn voru sendir frá höfuðborginni Santo Domingo og átta frá Puerta Plata en það er lögreglan þar sem stýrir rannsókninni.

Morðið sjálft var framið á Extreme hótelinu á Cabarete ströndinni þar sem Hrafnhildur bjó og starfaði.

Krufning hefur leitt það í ljóst að Hrafnhildur lést eftir þungt höfuðhögg. Hún var auk þess með áverka víða um líkamann, meðal annars eftir eggvopn. Sem fyrr segir fannst Hrafnhildur skömmu eftir hádegi á mánudaginn. Krufning hefur leitt það í ljós að þá hún hafi þá líklega verið látin í fimmtán tíma.

Að sögn Nelson Rosarío, upplýsingafulltrúa lögreglunnar, sást síðast til Hrafnhildar á laugardagskvöldið en vinnufélagi hennar á hótelinu segist hafa séð hana þá. Eftir það er lítið vitað um ferðir hennar.

Lögregla vonast þó til að fjórir einstaklingar sem nú eru í haldi geti gefið einhverjar upplýsingar um þær. Einn þeirra sem er í haldi er grunaður um að hafa orðið Hrafnhildi að bana en hin þrjú, tveir karlar og ein kona, eru einnig talin geta veitt upplýsingar.

Alþjóðadeild Ríkislögreglustjórans á Íslandi, sem sér um samskipti við lögregluna í Dóminíska lýðveldinu, hefur engar upplýsingar fengið um morðið á Hrafnhildi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×