Innlent

Lögmaður dagskrárstjóra vill að úrskurðarnefnd endurskoði mál þeirra

Lögmaður Þórhalls Gunnarssonar og Sigrúnar Stefánsdóttur, dagskrárstjóra hjá Ríkisútvarpinu, hefur óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál taki mál þeirra til endurskoðunar. Ritstjóri Vísis segir kröfuna einungis til þess fallna að drepa málinu á dreif. Magnús Geir Eyjólfsson.

Vísir krafðist þess í nóvember í fyrra að Ríkisútvarpið afhenti ráðningarsamninga þeirra Þórhalls og Sigrúnar, en þegar RÚV varð ekki við þeirri beiðni kærði Vísir málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál. Nefndin úrskurðaði Vísi í vil og bar RÚV að afhenda upplýsingarnar.

Í samtali við fréttastofu segir Hróbjartur Jónatansson, lögmaður Þórhalls og Sigrúnar, að æskilegt hefði verið að sjónarmið skjólstæðinga sinna fengju að koma á framfæri og því sé farið fram á endurupptöku. Útilokar hann ekki að fari verði fram á lögbann komist nefndin að sömu niðurstöðu og áður.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, ritstjóri Vísis, segist vonast til að fá gögnin í vikulok.

Páll Magnússon, Útvarpsstjóri, segist ekki geta tjáð sig um málið meðan starfmennirnir kanni sína réttarstöðu. Aðspurður segir hann Ríkisútvarpið ekki vera að fara á svig við upplýsingalögin því ekkert annað hafi staðið til en að afhenda Vísi upplýsingar í samræmi við úrskurð nefndarinnar.

Í samtali við fréttastofu sagði Sigrún Stefánsdóttir að laun hennar væru einkamál og vildi hún að öðru leyti ekki tjá sig um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×