Erlent

Barnungar telpur afmeyjaðar fyrir opnum tjöldum

Óli Tynes skrifar
Lögreglan fjarlægir fólk frá búgarðinum.
Lögreglan fjarlægir fólk frá búgarðinum. MYND/AP

Yfir 400 börn hafa nú verið tekin af búgarði fjölkvænissafnaðar í Texas. Lögreglan segir að stúlkur niður í tólf ára hafi verið giftar fullorðnum karlmönnum og neyddar til kynlífs með þeim.

Sextán ára stúlka í hópnum er þegar fjögurra barna móðir. Margir karlanna eiga margar eiginkonur.

Fjölmargar mæður barnanna hafa fylgt sjálfviljugar með þeim. Karlmennirnir hafa hinsvegar kosið að halda sig áfram á búgarðinum.

Á búgarðinum fundu lögreglumenn meðal annars einhverskonar musteri með risastóru rúmi. Þangað voru telpurnar teknar til þess að hafa sínar fyrstu samfarir. Það var fyrir opnum tjöldum "til þess að Guð gæti orðið vitni" að atburðinum.

Leiðtogi safnaðarins Warren Jeffs situr þegar í fangelsi, dæmdur fyrir kynferðislega misnotkun á börnum. Hann tók við stjórn safnaðarins af föður sínum.

Menn furða sig á því hvernig þessi söfnuður gat starfað áratugum saman án þess að yfirvöld tækju í taumana. Grundvallarkenning safnaðarins er að fjölkvæni sé rétt og það sé rétt að barnungar telpur sé gefnar margfallt eldri mönnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×