Erlent

Ný ríkisstjórn tekur við völdum í Kenía

Stuðningsmaður Raila Odinga fagnar samkomulaginu.
Stuðningsmaður Raila Odinga fagnar samkomulaginu. MYND/AFP

Í dag tekur ný ríkisstjórn Kenýa við völdum í Naíróbí. Nú er vika síðan tímamótasamkomulag náðist milli Mwai Kibaki forseta og Raila Odinga stjórnarandstöðuleiðtoga. Vonast er til að samkomulagið bindi enda á óöldina sem riðið hefur yfir landið í kjölfar umdeildra forsetakosninga í lok desember.

Kofi Annan, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, var milligöngumaður um samkomulagið. Hann kom í þeim tilgangi til Kenía í janúar og hefur unnið að því síðan. Samkvæmt samkomulaginu munu leiðtogarnir tveir deila völdum, Kibaki sem forseti og Odinga í nýju embætti forsætisráðherra.

Fyrsta embættisverk nýrrar stjórnar er að samþykkja lög sem gera skiptingu valds með þessum hætti mögulega.

Meira en 1.500 manns létust í óeirðunum í kjölfar kosninganna og um 600 þúsund flúðu heimili sín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×