Erlent

Ísraelsk Madeleine McCann?

Óli Tynes skrifar
Afinn Roni Ron (45) og mamman Marie Pisam (23) huldu andlit sín í réttarsal
Afinn Roni Ron (45) og mamman Marie Pisam (23) huldu andlit sín í réttarsal
Fjörutíu og fimm ára gamall ísraelskur afi er grunaður um að hafa myrt fjögurra ára barnabarn sitt og eignast tvö önnur börn með móðurinni, fyrrverandi tengdadóttur sinni.

Móðirin og amman eru grunuð um aðild að málinu. Lík litlu telpunnar hefur hinsvegar ekki fundist ennþá. Því hefur hún í fjölmiðlum verið kölluð hin ísraelska Maddie.

Rose litla Ron átti stutta ævi og erfiða. Faðir hennar kvæntist franskri konu. Þar sem þau bjuggu til skiptis í Ísrael og Frakklandi talaði hún hvorki almennilega hebresku né frönsku.

Oft stóð hún og starði út í loftið. Eða barði höfðinu í vegginn til þess að vekja athygli á sér.

Móðirin hafði skilið við föður hennar og tekið saman við föður eiginmannsins. Tengdaföður sinn. Hún flutti með Rose inn á heimili hans og konu hans. Ömmu Rose og tengdamóður sinnar. Eignaðist þar tvö börn.

Svo dag nokkurn fyrir þrem mánuðum hvarf Rose sporlaust. Enginn tók eftir því í fyrstu af því að enginn tók eftir Rose.

Nú hafa hinsvegar móðirin og afinn verið handtekin. Afinn hefur sagt að þegar Rose grét hástöfum í aftursætinu á bíl hans, hafi hann slegið hana í reiðikasti. Hún hafi látist af högginu og í skelfingu sinni hafi hann sett lík hennar í ferðatösku og kastað því út í á.

Ferðataskan hefur hinsvegar ekki fundist og lögregluna grunar að málið sé ekki jafn einfalt og afinn og mamman vilja vera láta.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×