Enski boltinn

Bowler: Guðjón rétti maðurinn

Elvar Geir Magnússon skrifar
Guðjón Þórðarson.
Guðjón Þórðarson.

John Bowler, stjórnarformaður Crewe, er virkilega ánægður með ráðningu félagsins á Guðjóni Þórðarsyni. Guðjón tekur við sem knattspyrnustjóri Crewe á næstu dögum.

„Stjórnin telur sig hafa fundið rétta manninn í starfið. Guðjón passaði best í þann ramma sem við bjuggum til þegar leit að nýjum knattspyrnustjóra fór af stað," sagði Bowler við heimasíðu félagsins.

„Guðjón hefur afrekað margt og við teljum að persónuleiki hans og drifkraftur henti liðinu vel á þessum tíma. Við þurftum líka mann sem er til í að taka þátt í uppeldisstarfi okkar. Þetta félag byggist á leikmönnum sem koma upp úr unglingastarfinu."

„Guðjón hefur alltaf lagt áherslu á að vinna með yngri leikmenn og með því að ráða hann gátum við fengið ferska vinda án þess að breyta öllu umhverfinu," sagði Bowler en hann segir að tveir aðrir aðilar hafi einnig komið sterklega til greina í starfið.

„Það voru fjölmargir sem sýndu áhuga á starfinu en Guðjón hentar best og við erum mjög ánægðir með að hafa náð samkomulagi við hann. Hann hefur reynsluna sem við vorum að leita eftir. Guðjón hefur þjálfað á efri stigum en þetta. Við þekkjum hann vel frá Stoke og þá gerði hann góða hluti hjá Barnsley. Auk þess hefur hann þjálfað íslenska landsliðið og náð mjög góðum árangri með félagslið í heimalandi sínu."


Tengdar fréttir

Guðjón næsti stjóri Crewe

Guðjón Þórðarson hefur gengið frá samningi við enska 2. deildarliðið Crewe Alexandra. Samningur hans er út þetta tímabil til að byrja með og verður staða mála skoðuð eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×