Innlent

Hundeltur þjófur gripinn í Mjóddinni

MYND/GVA

Innbrotsþjófur fékk óblíðar móttökur þegar hann hugðist stela verðmætum úr húsi í Breiðholti. Fram kemur í frétt lögreglunnar að þegar hann hafi komið inn í húsið hafi mætt honum hundar sem tóku að gelta án afláts.

Við það vaknaði eigandi þeirra, fór á fætur og sá þá innbrotsþjófinn í anddyrinu. Sá síðarnefndi tók samstundis til fótanna en húsráðandi hringdi í svæðisstöð lögreglunnar í Breiðholti og tilkynnti um atvikið.

Lögreglumaðurinn sem svaraði fékk mjög góðar upplýsingar um útlit kauða sem var svo handtekinn skömmu síðar. Hinn óprúttni aðili var þá að sniglast í þjónustumiðstöð borgarinnar í Mjódd en hún er einmitt við hliðina á umræddri svæðisstöð.

Í fórum mannsins fundust nokkrir munir sem hann átti erfitt með að gera grein fyrir og leikur grunur á að þeir séu illa fengnir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×