Innlent

Ekki fleiri leitað til Stígamóta í 13 ár

Guðrún Jónsdóttir er talskona Stígamóta.
Guðrún Jónsdóttir er talskona Stígamóta. MYND/Auðunn Níelsson

Tuttugu og þrír einstaklingar leituðu hjálpar Stígamóta í fyrra vegna kláms og vændis og hafa þeir ekki verið fleiri í sögu samtakanna. Þá leituðu alls yfir 500 manns aðstoðar hjá samtökunum í fyrra.

Skýrsla síðasta árs var kynnt í dag og þar kemur meðal annars fram að starfið á Stígamótum virðist vera að færast í sambærilegt horf og á byrjunarárunum fyrir tíma Neyðarmóttöku vegna nauðgana og Barnahúss.

Þannig leituðu 527 einstaklingar til Stígamóta í fyrra vegna kynferðisofbeldis og er það fimmtungsaukning milli ára. Hafa þeir ekki verið fleiri frá árinu 1995. Þar af voru ný mál 277. Alls voru tekin nærri 1900 viðtöl við þá sem leituðu aðstoðar en fjöldi ofbeldismanna sem kom við sögu reyndist nærri 420 og hafa þeir ekki verið svo margir síðan árið 1994.

Sem fyrr segir leituðu 23 einstaklingar hjálpar vegna kláms og vændis en árið áður voru ný klám- og vændismál 17. Ef vændismálin eru skoðuð sérstaklega voru ný mál á árinu 2007 12 en Stígamót segja mikilvægt að bæta við þeim 13 vændismálum sem fylgdu frá fyrri árum. „Þessar tölur sýna svo ekki verður um villst hin nánu tengsl á milli kláms og vændis annars vegar og annars kynferðisofbeldis hins vegar," segja Stígamót.

Stígamót birta í fyrsta sinn upplýsingar um birtingarform nauðgana, en nauðgunarmál á borði samtakanna voru 118 í fyrra. Þar af var í ellefu tilvikum um lyfjanauðganir að ræða og sex tilvikum hópnauðganir og 14 tilvikum nauðganir í hjúskap eða sambúð. Í upplýsingum samtakanna kemur enn fremur fram að oftast á ofbeldið sér stað á sameiginlegu heimili þess sem er beittur ofbeldinu og ofbeldismanns, á heimili þess sem er beittur ofbeldinu eða á heimili ofbeldismanns, samtals í um 66 prósentum tilfella.

Þá segja Stígamót að kærutíðni hafi verið meiri í fyrra en mörg undanfarin ár. Engu að síður voru 78 prósent mála ekki kærð, 13 prósent voru kærð og óvíst var með rúm átta prósent mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×