Innlent

Sló til lögreglumanns á Broadway

MYND/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá til lögreglumanns sem hafði afskipti af honum á dansleik á Brodway í apríl í fyrra.

Maðurinn var einnig ákærður fyrir að hafa hótað tveimur lögreglumönnum lífláti eftir að hann var handtekinn og einnig fyrir að hafa reynt að skalla annan lögreglumannanna.

Maðurinn viðurkenndi að hafa reynt að slá til annars lögreglumannanna sem náði þó að skjóta sér undan og var hann sakfelldur fyrir það. Hann var hins vegar sýknaður af líflátshótunum en fyrir dómi mundu lögreglumennirnir ekki hvað maðurinn hafi sagt nákvæmlega. Segir í dómnum að maðurinn hafi verið í járnum þegar orðin féllu og þau bæru frekar vott um reiði manns sem einskis má sín frekar en hótanir.

Þá var hann einnig sýknaður af því að hafa reynt að skalla annan lögreglumannanna og taldi dómurinn að maðurinn hefði verið að brjótast um í haldi en ekki að skalla. Maðurinn rauf skilorð með broti sínu og var tekið tillit til þess við ákvörðun refsingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×