Innlent

Eldri borgarar æfir út i bílastæðasjóð

Næg stæði í nærliggjandi götum, að sögn framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs.
Næg stæði í nærliggjandi götum, að sögn framkvæmdastjóra Bílastæðasjóðs. Mynd/ Stefán

Eldri borgarar sem þiggja þjónustu á félagsmiðstöð Reykjavíkurborgar á Vesturgötu 7 eru æfir út í bílastæðasjóð. Sjóðurinn leigir út stæði í bílahúsi borgarinnar til fyrirtækja og stofnana sem starfa í Vesturbænum.

Kór eldri borgara æfir í félagsmiðstöðinni tvisvar í viku. Þegar kórfélagar, sem eru á aldrinum 75-85 ára gamlir, mæta á æfingu eru yfirleitt engin stæði laus fyrir þá í húsinu. Þeir þurfa því oft að ganga langar leiðir til þess að komast í félagsmiðstöðina, að sögn Arnars Sigurðssonar, formanns kórsins.

„Það sem er alveg ólíðandi er að þegar við mætum á æfingu er helmingurinn af stæðunum laus því að mannskapurinn er einhversstaðar annarsstaðar. Við getum hins vegar ekki lagt í bílahúsið af því að stæðin eru frátekin fyrir starfsmenn einhverra fyrirtækja," segir Arnar. Hann segir að eldri borgarar séu farnir að veigra sér við að nota þjónustu félagsmiðstöðvarinnar af því að þeir fái ekki stæði. Þeir þurfi því að ganga langar vegalengdir til að komast á æfingu.

Í samtali við Vísi sagði Kolbrún Jónatansdóttir, framkvæmdastjóri Bílastæðasjóðs, að í öllum bílahúsum borgarinnar væru stæði leigð út til fyrirtækja og stofnana. Á Vesturgötunni væru Landsbankinn, Tryggingamiðstöðin, Tollstjórinn og fleiri með stæði á leigu. Þetta fyrirkomulag væri til þess að rekstur bílastæðasjóðs stæði undir sér. Þegar kórinn hefði komið með sínar athugasemdir hefðu verið tekin frá stæði fyrir kórinn,. „Ég tel mig því vera búin að gera það sem ég get gert fyrir þau í bili," sagði hún. Hún bætti því við að í Garðastræti og öðrum götum í nágrenninu væru næg stæði að leggja í.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×