Innlent

Vilja fá ábendingar um viðhald og nýframkvæmdir

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hleypti átaksverkefninu af stað í dag.
Ólafur F. Magnússon borgarstjóri hleypti átaksverkefninu af stað í dag. MYND/Reykjavíkurborg

Borgaryfirvöld hyggjast hafa víðtækt samráð við íbúa í hverfum borgarinnar um viðhaldsverkefni og smærri nýframkvæmdir þar og verður óskað eftir ábendingum þar um.

Þetta var meðal þess sem fram kom þegar Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, ýtti í dag samráðsverkefninu 1,2 og Reykjavík formlega úr vör. Stýrihópi í hverju hverfi verður ætlað að virkja börn, unglinga og fullorðna til að setja fram hugmyndir og ábendingar um viðhaldsverkefni og nýframkvæmdir og þá verður einnig hægt að koma ábendingum þar um á framfæri á heimasíðu borgarinnar.

Ábendingum um nauðsynlegt viðhald verður komið til viðkomandi hverfastöðvar Framkvæmda- eða Umhverfis- og samgöngusviðs. Hugmyndir um nýframkvæmdir og stærri viðhaldsverkefni verða kynntar og ræddar á opnum samráðsfundum með borgarstjóra á tímabilinu frá 12. apríl til 3. maí. Niðurstöður verða sendar íbúum í bæklingi eða með öðrum hætti með vorinu, segir í tilkynningu borgarinnar.

„Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa og alla landsmenn til að nýta sér vettvang 1,2 og Reykjavík til að stuðla að fegurra borgarumhverfi og blómstrandi mannlífi í öllum hverfum borgarinnar," segir enn fremur í tilkynningu borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×