Fastanefnd Fjórðungssambands Vestfirðinga um samgöngumál lýsir yfir fullum stuðningi við fyrirhugaða byggingu samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýri í Reykjavík.
Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á fundi nefndarinnar á dögunum. Þar segir að miðstöðin muni valda straumhvörfum í þjónustu við þá gesti höfuðborgarinnar sem ferðast með flugi eða áætlunarbifreiðum. Tengsl höfuðborgar og landsbyggðar eflist, einkum með tilliti til þeirra mennta- og rannsóknastofnanna sem eru og munu verða staðsettar í Vatnsmýrinni og miðbæ Reykjavíkur.
Staðsetning flugvallar og samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni styrki einnig ferðaþjónustu, jafnt í höfuðborginni sem og á landsbyggðinni, því ekki þurfi að fara langa vegalengd með ferðamenn eða ráðstefnugesti til að sýna þeim landið, hvort sem er í lofti eða á láði.
„Í dag fara fleiri farþegar í gegnum Reykjavíkurflugvöll, heldur en gerðu í millilandaflugi árið 1987 þegar Flugstöð Leifs Eiríkssonar var opnuð. Það er því löngu tímabært að við flugvöllinn í höfuðborg Íslands rísi nútímaleg samgöngumiðstöð þar sem gestum borgarinnar er boðið upp á fyrsta flokks þjónustu," segir að endingu í ályktuninni.