Innlent

Íbúar í Vogum vilja breyta ímynd sveitarfélagsins

„Þetta gekk mjög vel og það mættu rúmlega 200 manns," segir Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd en í kvöld var haldinn íbúafundur í sveitarfélaginu til þess að ræða hvernig bæta mætti ímynd sveitarfélagsins.

„Við ræddum meðal annars hvernig mætti efla forvarnir og koma þeirri ímynd á framfæri að við séum öruggt fjölskyldusamfélag. Þetta samfélag er nefnilega allt öðruvísi en fjölmiðlar hafa verið að gefa í skyn undanfarið," segir Róbert og bætir því við að mikill hugur hafi verið í fólki á fundinum um að vinna að því að gera bæinn betri.

Sveitarfélagið hefur verið nokkuð í fréttum í tengslum við ákveðna menn sem þar búa. Skemmst er að minnast íkveikju í fjölda bíla sem voru í sveitarfélaginu. „Það búa örugglega vafasamir menn í öllum samfélögum og þau samfélög vilja svoleiðis menn í burtu. Það er ekkert öðruvísi hjá okkur," segir Róbert.

Aðspurður um hvernig bæjarbúar hyggist bæta ímynd sveitarfélagsins segir Róbert að setti verði á svokölluð hverfislöggæsla. „Það kemur forvarnarlögregluþjónn sem hefur starfsaðstöðu í félagsmiðstöðinni í bænum og einnig var ákveðið að stofna svokallað ungmennaráð fyrir krakka á aldrinum 14-18 ára. Það á að vera öflugur vettvangur fyrir forvarnir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×