Innlent

Langskólagengnir kennarar ná ekki endum saman

Andri Ólafsson skrifar
Þóra Margrét Birgisdóttir, ein fjölmargra kennara sem hafa flúið og eru að undirbúa flótta úr kennarastétt.
Þóra Margrét Birgisdóttir, ein fjölmargra kennara sem hafa flúið og eru að undirbúa flótta úr kennarastétt.

„Það var mjög súrt að útskýra fyrir nemendum mínum að ég gæti ekki lengur verið kennarinn þeirra. En ég verð að ná endum saman."

Þetta segir Þóra Margrét Birgisdóttir, ein fjölmargra kennara sem hafa flúið og eru að undirbúa flótta úr kennarastétt. Ástæðan fyrir flótta Þóru Margrétar er ekki flókin. Hún nær einfaldlega ekki endum saman með útborguðum launum grunnskólakennara.

Til útskýringar fékk Þóra Margrét, sem lauk prófi frá Kennaraháskóla Íslands og framhaldsmámi í tómstundarfræðum, 126 þúsund krónur útborgaðar eftir sinn fyrsta mánuð í starfi sem kennari við Vesturbæjarskóla í Reykjavík. Það nægir varla fyrir leigu á tveggja herbergja íbúð í Reykjavík samkvæmt lauslegri úttekt Vísis á aðstæðum á leigumarkaði.

Þóra Margrét hefur því eins og svo margir kennarar undanfarin misseri ákveðið að söðla um. Hún tilkynnti nemendum sínum í 5.bekk nýlega að hún geti ekki verið kennarinn þeirra lengur. Þegar börnin spurðu hvað hún ætlaði sér svaraði Þóra að hún væri hætt að vera kennari og muni hefja störf í tískvöruverslun í Kringlunni innan skamms þar sem hún kemur til með að þéna nærri þrefalt meira en hún gerði í starfinu sem hún menntaði sig til að vinna. En það er augljóst á Þóru að það var ekki auðvelt að flytja nemendum sínum þessi tíðindi.

"Ég vissi auðvitað að kennarastarfið væri illa launað. En þegar ég sá fyrsta launaseðilinn minn hélt ég að verið væri að gera grín í mér. 126 þúsund krónur! Og allann þann tíma sem ég hef unnið sem kennari síðan hef ég aldrei fengið yfir 150 þúsund krónur útborgaðar. Og það þrátt fyrir að ég ynni alla þá aukavinnu sem mér stóð til boða í skólanum."

Þar sem útborguð laun Þóru nægðu ekki til að ná endum saman þurfti hún að vinna tvær aukavinnur með kennarastarfinu. Hún bauð upp á heimakennslu á kvöldin og vann í tískuvöruverslun um helgar.

„Svo kom einfaldlega að þeim tímapunkti þar sem ég sagði hingað og ekki lengra," segir Þóra.

Saga Þóru Margrétar er langt frá því að vera einsdæmi. Sjálf þekkir hún mörg dæmi þess að kennarar hafi gefist upp á þessum kjörum. Það sé til dæmis ósjaldan rætt á kaffistofunni hversu fjarstæðukennt það sé að afgreiðslufólk í stórmörkuðum sé með töfalt hærri mánaðarlaun en langskólamenntaðir kennarar.

Hún bendir einnig á hversu grátbroslegt það sé að fólkinu sem ætlað er að innræta í börn okkar mikilvægi menntunnar hrökklist úr starfi til að sinna afgreiðslustörfum í tískuvöruverslunum.

Aðspurð um hvað þurfi til að breyta þessari þróun og fá Þóru og kollega hennar aftur inn í skólana svarar Þóra: „Eg bið svo sem ekki um mikið. Ég vill bara sómasamlega laun fyrir það starf sem ég vinn og þá menntun sem ég hef aflað mér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×