Lífið

Hlustendaverðlaun veitt í mars

Páll Óskar átti þrjú lög á toppnum í árslista FM957.
Páll Óskar átti þrjú lög á toppnum í árslista FM957. Vísir/GVA
Hlustendaverðlaun FM957 verða veitt í Háskólabíói 8. mars næstkomandi. Þau eru í fyrsta skipti veitt fyrr en íslensku tónlistarverðlaunin, sem veitt verða einni viku síðar. Brynjar Már Valdimarsson á FM957 lofar „ógeðslega flottri“ hátíð.

„Við veitum verðlaun í átta flokkum, þeirra á meðal eru „besta erlenda aktið“ og „sóló-artisti ársins“, sem eru nýir flokkar. Í staðinn erum við hættir með flokkana „bestir á balli“ og „myndband ársins“, enda eru bæði fyrirbærin alveg búin þannig séð. Sveitaballa­stemningin er allavega alveg fyrir bí og við erum að spá í að koma með „bestir á sviði“ í staðinn.“

Brynjar segir að tilnefningarnar liggi fyrir eftir um það bil mánuð og að kosið verði á netinu í þrjár vikur fyrir verðlauna­afhendinguna. „Það hefur alltaf verið gífurleg þátttaka og verður örugglega með mesta móti nú enda hefur íslensk tónlist sjaldan verið eins áberandi hjá okkur.“

Því til sönnunar nefnir Brynjar sögulegar vinsældir Páls Óskars. „Það gerðist í fyrsta skipti í sautján ára sögu stöðvarinnar að íslenskt lag var mest spilaða lag ársins í hittifyrra, Barfly með Jeff Who? Í fyrra toppaði Páll Óskar svo öll met og átti ekki bara vinsælasta lag ársins heldur var með þrjú lög á topp tíu. Ekkert þessu líkt hefur gerst hjá okkur áður.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×