Hópur breskra verkfræðinga notaði stærðfræðiformúlu til þess að komast að því að of þungir bremsufætur valda mörgum af þeim umferðarhnútum sem verða á hraðbrautum.
Segjum sem svo að ökumaður á hraðbraut hægi á sér af einhverjum orsökum. Hann stígur létt á bremsuna. Það kvikna rauð bremsuljós. Næsti ökumaðujr á eftir sér bremsuljósin og hann stígur sjálfur á bremsuna. Og hann stígur aðeins fastar á hana en bílstjórinn á undan.
Það gerir næsti ökumaður á eftir honum líka. Og svo koll af kolli. Einhversstaðar langt fyrir aftan stöðvast umferðin alveg og það er kominn veglegur umferðarhnútur. Það tekur heillangan tíma að ná umferðinni upp í sama hraða aftur.
Og þetta er dýrt. Reiknað hefur verið út að í Danmörku tapast um 120 milljarðar króna árlega vegna þess að vörum og fólki seinkar á þjóðvegunum.