Nicolas Anelka var hetja Frakka í dag þegar hann tryggði þjóð sinni afar mikilvægan 1-0 sigur á Litháum í B-riðli undankeppni EM í dag. Anelka skoraði sigurmarkið á 74. mínútu, en leikurinn þótti ekki upp á marga fiska. Með sigrinum náðu Frakkar að halda í við Skota í baráttunni um toppsætið í riðlinum en bæði lið eru með 12 stig eftir fimm leiki.
Frakkar léku án tveggja lykilmanna, þeirra Patrick Vieira og Thierry Henry, og áttu erfitt uppdráttar á löngum köflum. Þjálfarinn Raymond Domenech var þó ánægður með sigurinn.
“Í svona leikjum er eina markmiðið að ná þremur stigum, sem og við gerðum. Þetta var alls ekki auðvelt hér í dag,” sagði Domenech, en hann var í fýlu út í Anelka í þrjú ár eftir að framherjinn hjá Bolton neitaði að spila fyrir landsliðið árið 2002. Anelka var hins vegar tekinn í sátt á síðasta ári og reyndist nú bjargvættur Domenech.