Innlent

Lánasýsla ríkisins lögð niður og verkefni færð undir Seðlabankann

MYND/Róbert

Verkefni Lánasýslu ríkisins verða færð til Seðlabanka Íslands og stofnunin formlega lögð niður samkvæmt tillögu sem Árni Mathiesen fjármálaráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Að sögn Böðvars Jónssonar, aðstoðarmanns fjármálaráðherra, eru breytingarnar gerðar í hagræðingarskyni og í takt við minnkandi umsvif stofnunarinnar. Verkefni stofnunarinnar verða flutt í Seðlabankanna frá og með næstu mánaðamótum og verður Lánasýslan sem stofnun lögð niður með lagafrumvarpi sem fjármálaráðherra leggur fram á þingi í haust.

Lánasýsla ríkisins var stofnuð árið 1990 með lögum frá Alþingi. Hlutverk stofnunarinnar er samkvæmt heimasíðu hennar að annast lántökur ríkissjóðs og ríkisstofnana innanlands og utan, útgáfu og sölu ríkisverðbréfa á innlendum markaði og fara með endurlán lánsfjár og ríkisábyrgðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×