Erlent

Fidel ýjar að afsögn

Fidel Castro, leiðtogi Kúbu hefur í fyrsta skipti gefið til kynna að hyggist setjast í helgan stein á næstunni. Bréf frá Castro var lesið í vinsælum sjónvarpsþætti í landinu í gær og þar sagði Castro það vera skyldu sína að sitja ekki of lengi að völdum og að betra væri að hleypa yngri mönnum að.

Þetta er í fyrsta sinn sem Castro, sem er 81 árs, hefur gefið í skyn að það styttist í að hann láti af embætti en hann hefur stjórnað landinu síðan á sjötta áratugnum. Í bréfinu sagði hann að hann ætlaði sér ekki að hanga á völdunum heldur væri það skylda hans að hleypa sér yngri mönnum á toppinn áður en heilsan gefur sig að fullu, en Castro hefur strítt við veikindi síðustu ár. Þannig gæti byltingarleiðtoginn miðlað af reynslu sinni og hugmyndafræði til þess sem tekur við.

Að sögn fréttararitara BBC í Havana er ekki litið á bréfið sem formlegt afsagnarbréf og að engar vísbendingar séu um hvenær Castro hyggist láta af embætti. En úr því Castro minnist sérstaklega á yngri menn í bréfinu er það talið vera merki þess að Raoul Castro, yngri bróðir Fídels, sé ekki framtíðarleiðtogi í landinu enda er hann 76 ára gamall.

Raoul tók við stjórnartaumunum í landinu tímabundið af Fídel á síðasta ári þegar leiðtoginn veiktist. Hann hefur ekki komið fram opinberlega síðan þá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×