Innlent

Öryggismál Dominos til endurskoðunar

Rekstrarstjóri Dominos pizzustaðanna segir að farið verði yfir öryggismál á öllum verslunum fyrirtækisins í kjölfar tilrauns til vopnaðs ráns í gærkvöldi. Lögreglan leitar enn að hópi ungra manna sem réðust grímuklæddir og vopnaðir inn á matsölustað í Grafarvoginum.

Það var á ellefta tímanum í gærkvöldi sem að fimm eða sex piltar réðust inn á matsölustað Dominos í Spönginni í Grafarvogi. Þeir komust inn um starfsmannainngang og ógnuðu starfsfólki með hníf og byssu.

Til ryskinga kom milli starfsmanns og piltanna sem endaði þannig að þeir hlupu aftur út um sömu dyr án þess að hafa neitt með sér. Starfsmanninn sakaði ekki.

Talið er að byssan sem þeir voru með hafi annað hvort verið loftbyssa eða leikfangabyssa. Nokkrir viðskiptavinir voru inn á staðnum þegar ungu mennirnir réðust þar inn. Þeir héldu fyrst að um grín væri að ræða þar sem piltanir voru með grímur og var þeim brugðið þegar þeir áttuðu sig á því að piltunum væri full alvara.

Staðurinn var lokaður í nótt og öllu starfsfólkinu boðið áfallahjálp. Engin öryggismyndavél er á staðnum en unnið er að því að koma henni upp.

Hrafn Stefánsson rekstarstjóri hjá Dominos segir öryggismál verða skoðuð á næstunni. Einn starfsmannanna náði að þrýsta á neyðarhnapp meðan piltarnir voru inni og var lögreglan fljótlega komin á staðinn. Allir bílar á leið úr hverfinu voru stöðvaðir og leitað í þeim. Þegar lögreglan taldi ljóst að málið var ekki eins alvarlegt eins og þeir töldu í fyrstu var leit hætt í bílunum.

Lögreglan hefur einhverjar vísbendingar sem verið er að vinna út frá.

Aðeins er vika síðan að piltar á svipuðum aldri réðust vopnaðir inn í verslun í Hlíðunum og rændu þar peningum og tóbaki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×