Innlent

Nefnd skoði möguleika á auknu eftirliti með loftförum

MYND/GVA

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að skipa nefnd til að kanna með hvaða hætti er hægt að efla eftirlit með lofförum sem lenda hér á landi. Þetta kom fram í svari hennar við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar um fangaflug CIA og tengsl NATO og Íslands við það.

Steingrímur spurði meðal annars hver væru tengsl þeirra ákvarðana sem teknar hefðu verið á fundi NATO í október 2001 um varnir gegn hryðjuverkum við fangaflug og leynifangelsi bandarísku leyniþjónustunnar. Spurði hann enn fremur hvaða ábyrgð ráðherra teldi að Ísland, sem aðili að þeim ákvörðunum, bæri á þeim mannréttindabrotum sem fylgt hefðu í kjölfarið. Benti Steingrímur á að saklausu fólki hefði verið rænt á götum úti og það flutt til landa þar sem pyntingar væru leyfðar.

Ingibjörg sagði að ekki hefði verið hægt að túlka ákvarðanir NATO-fundarins sem svo að bandalagið hefði verið að heimila fangaflutninga til pyntinga. Íslensk stjórnvöld myndu aldrei samþykkja slíkt.

Ákvarðanirnar hefðu falið í sér almenna heimild til yfirflugs. Fram hefði komið að loftför sem hefðu haft sömu skráningarnúmer og þau sem notuð hefðu verið til fangaflutninga hefðu lent hér á landi. Utanríkisráðuneytinu væri ekki kunnugt um þær vélar sem lent hefðu hér hefðu verið með fanga um borð.

Ítrekaði utanríkisráðherra að á fundi NATO hefðu ekki verið gefnar neinar heimildir til fangaflugs og pyntinga. Pyntingar væru alvarlegur glæpur sem íslensk stjónvöld myndu aldrei samþykkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×