Fótbolti

Aragones er útrunnin mjólk

AFP

Luis Aragones, landsliðsþjálfari Spánverja í knattspyrnu, segist ekki ætla að framlengja samning sinn við knattspyrnusambandið fram yfir EM á næsta ári þó spænska liðið hafi verið að rétta úr kútnum undir hans stjórn undanfarið.

Spánverjar unnu góðan sigur á Svíum í síðasta leik og eru öruggir um sæti á EM þrátt fyrir misjafnt gegni í leikjum sínum í undankeppninni. Aragones hefur áður lofað að hætta en ekki staðið við það - en nú segist hann vera búinn að fá nóg þegar samningstímanum lýkur næsta sumar.

"Ég er eins og mjólk. Það er ekki hægt að drekka mjólk þegar hún er komin fram yfir síðasta söludag," sagði Aragones, en hans menn geta tryggt sér efsta sætið í F-riðli með sigri á Norður-Írum í Las Palmas á miðvikudaginn.

"Það er mikilvægt að halda áfram á því góða róli sem við höfum verið á undanfarið því það er betra að fara inn í lokakeppni með gott sjálfstraust í hópnum," sagði Aragones.

Þó spænskir hafi kannski ekki að jafn miklu að keppa og Norður-Írarnir í lokaleiknum, segir Aragones mikilvægt fyrir sína menn að hefna ófaranna í fyrri leiknum í Belfast sem tapaðist 3-2.

"Við þurfum bara aðeins meiri trú á það sem við erum að gera og þá gætum við átt fína keppni á EM. Ef við gerum það ekki, munum við valda vonrigðum eins og við höfum gert á síðustu stórmótum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×