Innlent

Mikil hækkun á íbúðaverði í október

Verð á íbúðarhúsnæði hækkaði um hátt í þrjú prósent í síðasta mánuði frá mánuðinum á undan og er hækkunin langt yfir meðaltalshækkun síðustu tólf mánuðina.

Tólf mánaða hækkun nemur 16,7 prósentum og þar af nemur hækkunin síðust sex mánuði röskum tíu prósentum. Hækkanir hafa því verið að aukast á milli mánaða upp á síðkastið eða áður en almenn umræða um hátt húsnæðisverð og hækkandi vexti hófst og áður en forsætisráðhera ráðlagði fólki að halda að sér höndum við húsnæðiskaup og áður en Kaupþing og fleiri breyttu yfirtökuskilmálum á lánum.

Ef sú umræða hefur einhver áhrif kemur það ekki í ljós alveg strax því Fasteignamat ríkisins byggir útreikninga sína um verðþróun á þinglýstum samningum. Allt upp í nokkrar vikur geta liðið frá gerð kaupsamninga að þinglýsingu og því eru margir samningar enn í pípunum frá því áður en umræðan hófst.

Ýmsir fjármálasérfræðingar og greiningardeildir bankanna hafa í heilt ár spáð því að verulega muni draga úr hækkunum alveg á næstunni eða að verð fari að staðna en allt hefur komið fyrir ekki. Engar skýringar eru heldur haldbærar því hægar gengur nú en áður að selja nýjar íbúðir, nýjum óseldum íbúðum fjölgar jafnt og þétt og fjöldinn allur til viðbótar er í byggingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×