Innlent

Auðvelt að fá jólasveina en vantar Grýlu

Jólasveinaþjónustur eru nú að fara í fullan gang fyrir jólavertíðina. Yfirjólasveinninn Sæmundur Magnússon hjá jólasveinaþjónustunni Jólasveinarnir segir að ekkert þýði að auglýsa eftir fólki í hlutverkið, fólk leiti til hans af afspurn ef það hafi áhuga; „Annað hvort hefurðu þetta í þér eða ekki. Nú sárvantar hins vegar Grýlu."

Guðni Harðarson hjá jólasveinaþjónustu Skyrgáms segist „handpikka" fólk en flest hans starfsfólk komi frá KFUM og K.

Yfirleitt eru jólasveinar fengnir á jólaböll, leikskóla og heimahús, en fyrirspurnir geta verið æði mismunandi. Þá er nokkuð um að hringt sé af börnum, og jafnvel foreldrum þeirra, sem vilja vita hvort jólasveinninn sé til „í alvörunni."

Kostnaður getur verið æði misjafn fyrir að fá jólasvein, allt frá innan við 10 þúsund krónum og upp úr, en fer eftir umfangi.

"Hæsta verð sem ég myndi setja upp er líklega ein milljón fyrir að koma í heimahús eftir klukkan sex á aðfangadagskvöldi," segir Sæmundur og bætir við að jólin séu einfaldlega ómetanleg og ekki hægt að ætlast til að jólasveinarnir sjálfir missi af þeim.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×