Erlent

Rússar opna leynilega flugstöð

Þórir Guðmundsson skrifar

Rússar stunda þessa dagana viðamiklar heræfingar í lofti, meðal annars með sprengjuflugvélum sem hafa verið að fljúga meðfram Íslandi. Hinn háleynilegi herflugvöllur í sunnanverðu Rússlandi, þar sem miðstöð vélanna er, hefur ekki áður verið opnaður vestrænum fréttamönnum.

Og þó að vígtólin virðist ekki sérlega nútímaleg þá eru birnirnir gömlu, Tupolev 95, langdrægir og geta borið kjarnorkuvopn til árása hvar í heiminum sem er. Hið sama má segja um stjórnstöðina - en hún gerir sitt gagn.

Í síðasta mánuði flugu rússneskar sprengjuflugvélar milli Noregs og Íslands að ströndum Skotlands - og rússneskir ráðamenn segjast munu halda áfram slíkum eftirlitsferðum. Flugmaðurinn í vélinni sem fór í þessa ferð segir að allt hafi farið vel fram.

"Við brostum hver til annars og veifuðum," segir hann um það þegar norskar og breskar herþotur flugu upp að sprengjuflugvélinni. Pútin Rússlandsforseti hefur látið mynda sig í þessum vélum og þannig sett nafn sitt við þessa aukna vígbúnaðarvæðingu í lofti.

Útgjöld rússneskra stjórnvalda til hernaðar hafa fjórfaldast síðan hann komst til valda. Á æfingunum sem nú standa yfir er flogið bæði að nóttu sem degi og sömuleiðis eru notaðar nýrri sprengjuflugvélar, TU160, sem eru stundum kallaðar svartipétur.

Ríkissjóður Rússa bólgnar út af gróðanum af háu olíuverði og gefur hernum kost á auknum umsvifum. Eða, eins og rússnesku flugmennirnir orða það, gefa þeim kost á að halda sér í æfingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×